Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (Árnastofnun) hóf starfsemi 1. sept. 2006 og tók þá við hlutverki fimm stofnana: Íslenskrar málstöðvar, Orðabókar Háskólans, Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnunar Sigurðar Nordals og Örnefnastofnunar Íslands.

Meginhlutverk stofnunarinnar eru: að afla frumgagna um íslenska menningu – handrit, skjöl, orða- og nafnasöfn og þjóðfræðasöfn – varðveita þau og skrá; að vinna að rannsóknum á íslenskum fræðum, tungu, bókmenntum og sögu; að miðla þekkingu á viðfangsefnum sínum til almennings og fræðasamfélags með ráðgjöf, kennslu, opnum gagnagrunnum og birtu efni og að efla samstarf stofnana á fræðasviði sínu utan lands og innan.